Mitt Romney, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, segir þann dag verða dag skammar fyrir ríkisstjórn Baracks Obama ef í ljós komi að ekki hafi tekist að vernda kínverska andófsmanninn Chen Guangcheng.
Chen er aðgerðarsinni sem varð heimsfrægur er hann kom upp um stefnu kínverskra stjórnvalda um að takmarka barneignir Kínverja við eitt barn. Chen leitaði skjóls í bandaríska sendiráðinu í Peking en yfirgaf það í gær. Chen segist óttast um öryggi sitt og segir sendiráðsstarfsmenn hafa þrýst á sig að yfirgefa sendiráðið.
Málið hefur vakið mikla athygli og gert samband Kína og Bandaríkjanna stirðara.
Romney segir að Bandaríkjamenn eigi að vera stoltir að menn á borð við Chen vilji fá hæli í landi þeirra. Romney sagði fréttir herma að Chen hafi verið beittur þrýstingi til að yfirgefa sendiráðið til að koma í veg fyrir stjórnmálakrísu milli landanna tveggja, nú þegar Hillary Clinton er komin til Peking til viðræðna við kínversk stjórnvöld.
„Ef þessar fréttir eru réttar, er þetta svartur dagur fyrir frelsið og dagur skammar fyrir ríkisstjórn Obama,“ sagði Romney.