„Berfætti lögfræðingurinn“ setur allt á annan endann

Chen Guangcheng er orðinn að táknmynd kúgunar og mannréttindabrota Kínverja …
Chen Guangcheng er orðinn að táknmynd kúgunar og mannréttindabrota Kínverja í heiminum. AFP

Máttur eins manns getur verið mikill. Um það getur enginn efast eftir að mál blinda andófsmannsins Chen Guangcheng, komst í hámæli um allan heim er hann leitaði hælis í bandaríska sendiráðinu í Peking. „Berfætti lögfræðingurinn“ setti allt á annan endann er hann afhjúpaði barneignarstefnu kínverskra stjórnvalda.

Chen varð blindur vegna sjúkdóms er hann var barn. Hann er nú fertugur. Hann ólst upp í Shandong-héraði í austurhluta Kína, við þjóðsögur um hugrakkar hetjur sem buðu illræmdum stjórnvöldum birginn til bjargar vanmáttugu, venjulegu fólki.

Það var faðir hans sem sagði honum þessar hetjusögur og veittu þær Chen þann innblástur sem hann þurfti til að hefja baráttu sína fyrir mannréttindum.

Barátta hans leiddi hann í allan sannleikann um meðferð kínverskra yfirvalda á þegnum sínum og svo fór að hann varð sjálfur fórnarlamb þeirra og upplifði ofbeldi af hálfu lögreglunnar, stöðugt eftirlit, stofufangelsi og loks fangelsi.

Afhjúpunin mikla

Eftir að Chen sakaði stjórnvöld í Linyi -héraði um að hafa þrýst á 7.000 konur að fara í fóstureyðingu seint á meðgöngu og gangast undir ófrjósemisaðgerðir, varð fjandinn laus. Aðgerðirnar voru hluti af barneignarstefnu kínverskra stjórnvalda sem einfaldlega var kölluð „Eitt barn“.

Chen var fyrir þetta dæmdur í 4 ára og þriggja mánaða fangelsi árið 2006. Opinberlega var hann þó fangelsaður fyrir allt annað, eða fyrir „eignarspjöll og að skipuleggja mótmæli sem stöðvuðu umferð“. Mótmælin voru reyndar skipulögð af stuðningsmönnum Chen sem voru að mótmæla meðferð stjórnvalda á honum.

Á meðan á réttarhöldunum stóð var lögmönnum Chens meinaður aðgangur að dómsalnum. Þeir höfðu allir þurft að þola barsmíðar sem þeir telja að stjórnvöld í Linyi-héraði hafi skipulagt.

Chen var fyrir ofbeldi í fangelsinu er samfangar hans réðust á hann að minnsta kosti einu sinni, að sögn kínversku mannréttindasamtakanna Human Rights Defenders.

Þá varð eiginkona hans, Yuan Weijing, einnig fyrir áreitni og líkamlegu ofbeldi.

Eftir að Chen var látinn laus úr fangelsi í september árið 2010 var hann og fjölskylda hans sett í stofufangelsi og máttu engin samskipti hafa við umheiminn. Öryggisverðir á vegum stjórnvalda vöktuðu heimili þeirra.

Andófsmenn og blaðamenn sem reyndu að heimsækja hann áttu ekki erindi sem erfiði og margir þeirra voru áreittir. Meðal þeirra sem freistuðu þess að heimsækja Chen var bandaríski leikarinn Christian Bale, nú í desember.

Chen og eiginkona hans voru svo barin eftir að þeim tókst að smygla myndbandsupptöku af aðbúnaði á heimili þeirra út af heimilinu.

Sjálfmenntaður lögfræðingur

Chen hefur enga formlega menntun sem lögfræðingur. Hann er sjálflærður, það sem kallað er „berfættur“ í Kína.

Hann er mjög lögfróður og hefur veitt fólki aðstoð við úrlausn lögfræðilegra málefna. Hann varð þekktur í heimabæ sínum er hann hjálpaði íbúunum að sækja rétt sinn gagnvart yfirvöldum á ýmsum sviðum.

Þó að nefnd á vegum kínverskra stjórnvalda hafi árið 2005 viðurkennt opinberlega að stjórnvöld í Linye hefðu þvingað konur til fóstureyðinga og ófrjósemisaðgerða og lofuðu að draga fólk til ábyrgðar, varð Chen engu að síður fyrir áreitni og miklum þrýstingi stjórnvalda er hann tjáði sig um málið.

Árið 2006 var hann útnefndur einn af 100 áhrifamestu mönnum heims af Time-tímaritinu, fyrir að koma upp um mannréttindabrot í Kína.

Mótmælendur fyrir utan Hvíta húsið hvetja bandarísk stjórnvöld til að …
Mótmælendur fyrir utan Hvíta húsið hvetja bandarísk stjórnvöld til að veita Chen Guangcheng hæli. AFP
Mótmælendur skora á kínversk stjórnvöld að frelsa Chen.
Mótmælendur skora á kínversk stjórnvöld að frelsa Chen. AFP
Chen Guangcheng yfirgefur bandaríska sendiráðið í Peking.
Chen Guangcheng yfirgefur bandaríska sendiráðið í Peking. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert