Chen á leið til Bandaríkjanna?

Chen Guangcheng, sem er blindur, kemur út úr bandaríska sendiráðinu …
Chen Guangcheng, sem er blindur, kemur út úr bandaríska sendiráðinu í Peking. HANDOUT

Búist er við að kínverski andófsmaðurinn Chen Guangcheng fari fljótlega til Bandaríkjanna, en bandarísk stjórnvöld segja að honum hafi verið boðið að stunda nám við bandarískan háskóla og að eiginkona hans og börn muni fylgja honum.

Chen er sjálfmenntaður lögfræðingur sem er m.a. þekktur fyrir að gagnrýna kínversk stjórnvöld fyrir ófrjósemisaðgerðir á konum í Shandong-héraði og að þvinga konur í fóstureyðingu. Sumar voru gengnar með á áttunda mánuð.

Chen sat í fangelsi í fjögur ár en var í framhaldi settur í stofufangelsi. Hann slapp þaðan í síðasta mánuði og dvaldi í sex daga í bandaríska sendiráðinu í Peking.

Málið hefur valdið bæði kínverskum og bandarískum yfirvöldum erfiðleikum. Chen hefur tekist að beina sjónum heimsbyggðarinnar að mannréttindamálum í Kína. Þó að Bandaríkjastjórn styðji kröfur á hendur Kínverjum um endurbætur á sviði mannréttindamála vilja þau ekki að málið spilli samskiptum ríkjanna. Margir stjórnmálamenn í Bandaríkjunum þrýsta fast á stjórn Obama að gefa ekki eftir í samskiptum við Kína í þessu máli. Mitt Romney hefur m.a. beint spjótum að Obama vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert