Getur sótt um nám erlendis

Kínversk stjórnvöld segja að kínverski andófsmaðurinn Chen Guangcheng geti sótt um leyfi til þess að stunda nám erlendis, að sögn talsmanns utanríkisráðuneytisins. „Ef hann vill stunda nám erlendis sem kínverskur ríkisborgari getur hann sótt um það samkvæmt hefðbundnum leiðum líkt og aðrir kínverskir ríkisborgarar,“ segir í yfirlýsingu sem talsmaðurinn, Liu Weimin, hefur sent frá sér. Chen er enn á sjúkrahúsi en hann meiddist á fæti er hann flúði úr stofufangelsi.

Bandarískir embættismenn sögðu í gær að þeir hefðu hafið viðræður við Chen vegna þess að hann vildi nú komast frá Kína með fjölskyldu sinni. Chen kvaðst óttast um öryggi sitt og fjölskyldu sinnar.

Chen, sem er blindur, sjálfmenntaður lögfræðingur, flúði úr stofufangelsi 22. apríl í Shandong-héraði þótt hann hefði verið í strangri gæslu tuga varða. Hann dvaldi í sex daga í sendiráði Bandaríkjanna í Peking þar til í fyrradag þegar hann féllst á að fara þaðan á sjúkrahús eftir að samkomulag náðist milli Bandaríkjamanna og Kínverja um að honum yrði veitt frelsi.

Talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins sagði að bandarískir embættismenn hefðu rætt tvisvar við Chen í síma um kosti hans í stöðunni eftir að honum snerist hugur.

Gary Locke, sendiherra Bandaríkjanna í Peking, neitaði því að Bandaríkjamenn hefðu þrýst Chen til að fara frá sendiráðinu.

Chen sagði í viðtölum í gær við AFP og fleiri fréttastofur að hann hefði í fyrstu ekki viljað óska eftir hæli í öðru landi en honum snerist hugur eftir að hann var fluttur á sjúkrahúsið. „Ég vil fara til annars lands. Ég vil að Bandaríkjamenn hjálpi mér og fjölskyldu minni,“ hafði AFPeftir Chen.

Andófsmaðurinn sagði í viðtali við CNN-sjónvarpið að hann óttaðist um öryggi sitt og fjölskyldu sinnar. Eftir flótta hans úr stofufangelsi hefðu lögreglumenn bundið eiginkonu hans á höndum og fótum niður í stól í tvo daga og hótað að berja hana til dauða.

Chen sagði í viðtali við breska ríkisútvarpið að hann hefði ekki getað hitt bandaríska embættismenn í gær og kvaðst telja að kínversk yfirvöld hefðu komið í veg fyrir það.

Talsmaður mannréttindasamtakanna Human Rights Watch sagði þau hafa efasemdir um að kínversk stjórnvöld myndu standa við loforð sín um að veita Chen frelsi. Standi þau ekki við samkomulagið gæti það orðið vopn í höndum andstæðinga Baracks Obama í forsetakosningunum í Bandaríkjunum.

Chen er einkum þekktur fyrir að afhjúpa mannréttindabrot embættismanna í Shandong sem þvinguðu þúsundir kvenna til að fara í ófrjósemisaðgerð eða í fóstureyðingu seint á meðgöngu til að tryggja að lög um eitt barn á fjölskyldu væru virt.

Chen Guangcheng
Chen Guangcheng Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert