Chen fær áritun um leið og hann sækir um hana

Öruggisvörður vaktar sjúkrahúsið í Peking þar sem Chen Guangcheng dvelur.
Öruggisvörður vaktar sjúkrahúsið í Peking þar sem Chen Guangcheng dvelur. Reuters

Varaforseti Bandaríkjanna, Joe Biden, segir að kínverski andófsmaðurinn Chen Guangcheng fái vegabréfsáritun um leið og hann sæki um hana. Chen hefur verið boðin skólavist við New York-háskóla. Samkomulag hefur náðst milli kínverskra og bandarískra stjórnvalda um að hann fái að fara frá Kína.

Biden segir að bandarísk stjórnvöld hvetji Chen til að taka námstilboðinu og að hann ætlist til þess að stjórnvöld í Kína standi við sinn hluta samningsins.

Chen hefur sett samskipti þjóðanna tveggja í uppnám eftir að hann leitaði hælis í bandaríska sendiráðinu í Peking. Hann er nú á sjúkrahúsi vegna meiðsla sem hann hlaut á flótta sínum en hann strauk úr stofufangelsi á síðasta ári.

Chen segir að hann fái ekki leyfi til heimsókna á sjúkrahúsið sem geri honum erfitt um vik að sækja um nauðsynlega pappíra sem þurfi til að yfirgefa landið. Hann segist hafa beðið starfsmenn sjúkrahússins að koma því á framfæri við kínversk stjórnvöld að þau aðstoði hann. Hann segist bundinn við sjúkrarúmið og að engar heimsóknir séu heimilaðar. Bandarískir embættismenn hafi reynt að heimsækja hann en ekki fengið leyfi til þess.

Chen Guangcheng nýtur mikils stuðnings víða um heim.
Chen Guangcheng nýtur mikils stuðnings víða um heim. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert