Frændi Chens sakaður um morð

Chen Guangcheng
Chen Guangcheng AFP

Kínverski andófsmaðurinn Chen Guangcheng segir að frændi hans eigi yfir höfði sér morðákæru fyrir að hafa ráðist á opinberan starfsmann sem braust inn í hús hans í austurhluta Kína. Chen segir málið fáránlegt.

Frændinn, Chen Kegui, er í haldi lögreglu eftir að óboðnir gestir réðust inn á heimili hans í Shandong-héraði. Voru þeir að leita að andófsmanninum eftir að hann flúði úr stofufangelsi.

Lögmaður Chens Keguis segir að starfsmaður Kommúnistaflokksins hafi slasast alvarlega í slagsmálunum á heimili Chens og tveir aðrir opinberir starfsmenn hafi slasast lítillega en enginn látist. 

Hins vegar heldur Chen því fram að í ákærunni sé frændi hans sakaður um morð. Undir þetta taka mannréttindalögfræðingar sem ætla að aðstoða frændann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert