Mótmælt á Spáni að nýju

Frá mótmælum í Madríd í fyrra.
Frá mótmælum í Madríd í fyrra. Reuters

Hreyfing „hinna grömu“ [sp. Los indignados] á Spáni hélt að nýju út á götur og torg í 80 borgum og þorpum landsins í dag til að mótmæla efnahagslegu óréttlæti og sýna mátt sinn, einu ári eftir hreyfingin, sem kennd er við 15. maí, kom fram á sjónarsviðið þar í landi.

Yfirvöld hafa gefið út að þau muni koma í veg fyrir að mótmælendur geti komið sér fyrir á Sólarhliðinu [sp. Puerta del Sol], torgi í miðborg Madrídar, sem gegndi lykilhlutverki í mótmælum gegn niðurskurði, óréttlæti, bankafólki og atvinnuleysi fyrir ári.

Mótmælagöngur í dag marka upphaf fjögurra daga mótmæla sem munu standa yfir til 15. maí, afmælisdags mótmælahreyfingarinnar. Hreyfingin treystir mikið á samskiptaforrit á veraldarvefnum. Hún hefur jafnframt haft mikil áhrif á sambærileg mótmæli í London og Occupy Wall Street-hreyfinguna í Bandaríkjunum.

Spánverjar hafa ríkt tilefni til að mótmæla að þessu sinni; samdrætti, atvinnuleysi upp á 24,4%, 52% atvinnuleysi meðal ungmenna og niðurskurðaraðgerðum sem nema 30 milljörðum evra.

Í Madríd hefur fjöldi mótmælagangna verið skipulagður í dag og mótmælendur stefna að því að sameinast síðan við Sólarhliðið líkt og fyrir ári.

Ríkisstjórnin hefur gefið út leyfi til að nota torgið til mótmæla á ákveðnum tímum næstu fjóra daga og hefur jafnframt gefið út að séð verði til þess að þessum tímasetningum verði framfylgt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert