Bandarísk yfirvöld segja að vegabréfsáritun fyrir kínverska andófsmanninn Chen Guangcheng og fjölskyldu hans verði tilbúin um leið og kínversk yfirvöld heimili honum að yfirgefa Kína.
Að sögn talsmanns bandaríska utanríkisráðuneytisins, hefur verið gengið frá öllum formlegum pappírum fyrir Chen, eiginkonu hans og tvö börn, og það eina sem vanti sé heimild frá kínverskum yfirvöldum. Meira en vika sé liðinn frá því gögnin voru tilbúin svo Chen geti flutt til Bandaríkjanna til að hefja þar nám.
Chen hefur verið boðin skólavist við New York-háskóla. Samkomulag hefur náðst milli kínverskra og bandarískra stjórnvalda um að hann fái að fara frá Kína en ekkert bólar enn á formlegu leyfi frá kínverskum yfirvöldum.