Fjölskylda Trayvons Martins ósátt við skýrslu

George Zimmerman.
George Zimmerman. POOL

Samkvæmt læknaskýrslu frá heimilislækni George Zimmerman, sem hefur verið ákærður fyrir að myrða Trayvon Martin, var Zimmerman með brákað nef, tvö glóðaraugu og tvo djúpa skurði á hnakkanum daginn eftir að unglingsdrengurinn Martin lést.

Zimmerman var foringi nágrannavaktar í bænum Sanford í Flórída. Að kvöldi 26. febrúar sl. kom hann auga á Martin, sem er þeldökkur, á leið úr matvöruverslun með innkaupapoka í hendi. Zimmerman hringdi í lögregluna og tilkynnti um „verulega grunsamlegan“ mann. Honum var sagt að lögreglan myndi athuga málið og var hann beðinn um að halda sig til hlés. Hann fór ekki að þeirri beiðni heldur elti piltinn vopnaður byssu.

Engin vitni eru að því hvað gerðist eftir það, Zimmerman segir Martin hafa ráðist á sig eftir orðaskipti og féll hann við það í götuna. Zimmerman ber við sjálfsvörn þar sem hann segir Martin hafa ítrekað lamið höfði hans í götuna en Martin var óvopnaður.

Læknaskýrslan var nýlega gerð opinber. Segir fjölskylda Zimmermans hana renna stoðum undir frásögn hans. Í mars sagði bróðir hans í sjónvarpsviðtali að skýrslan myndi varpa nýju ljósi á málið. „Maður svarar ofbeldi með ofbeldi þegar einhver ræðst á mann. George náði ekki andanum, hann var varla með meðvitund. Hann hefði dáið hefði hann ekki gert eitthvað strax.“

Fjölskylda Martins hefur sínar efasemdir um skýrsluna, að sögn lögmanns hennar, Benjamins Crump. „Fjölskyldan hefur mjög sterka skoðun á skýrslu læknisins sem var gerð daginn eftir atvikið. Það sem við vitum er að 26. febrúar fannst starfsfólki slysa- og bráðadeildar meiðsli Zimmermans svo lítilvæg að hann þyrfti ekki að leita á spítala. Það setti ekki einu sinni plástur á höfuð hans. Það er mikilvægt.“

Samkvæmt krufningarskýrslu var Martin með áverka á hnúunum þegar hann lést. Þykir það staðfesta að Martin og Zimmerman hafi slegist. „Hann var að berjast fyrir lífi sínu,“ útskýrir Crump. „Gleymum ekki að Trayvon Martin var að berjast við mann með byssu. Við verðum líka að muna að hann hóf ekki slagsmálin. George Zimmerman elti Trayvon Martin.“

Zimmerman verður gert að mæta fyrir dómara 8. ágúst nk.

Trayvon Martin.
Trayvon Martin. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert