Fréttaskýring: Írskt þjóðaratkvæði í skugga Grikklands

Reuters

Þjóðaratkvæðagreiðsla um svonefndan fjármálastöðugleikasáttmála innan Evrópusambandsins fer fram á Írlandi 31. maí næstkomandi en Írar eru einir þjóða innan sambandsins sem munu kjósa um sáttmálann, sem ætlað er að stuðla að efnahagslegum stöðugleika á evrusvæðinu og auknum samruna innan þess, þar sem írska stjórnarskráin krefst þess.

Þrátt fyrir að einungis nokkrir dagar séu í það að þjóðaratkvæðið fari fram hefur það verið nokkuð fyrir utan kastljós fjölmiðlanna og einkum fallið í skugga þeirra atburða sem átt hafa sér stað að undanförnu í Grikklandi þar sem stjórnmálaflokkar andvígir því að uppfylla kröfur Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um aukinn niðurskurð gegn frekari fjárframlögum juku mjög fylgi sitt í þingkosningum. Þar sem ekki hefur tekist að mynda starfhæfa ríkisstjórn í Grikklandi í kjölfar kosninganna verður kosið þar aftur 17. júní næstkomandi.

Síðustu skoðanakannanir á Írlandi hafa bent til þess að fleiri séu hlynntir fjármálastöðugleikasáttmálanum en andvígir. Þó eru enn mjög margir óákveðnir. Skoðanakönnun sem framkvæmd var fyrir írska dagblaðið Irish independent og birt var síðastliðinn fimmtudag 17. maí sýndi þannig 37% hlynnt sáttmálanum, 24% andvíg og ríflega þriðjung eða 35% óákveðin. Hliðstæðar niðurstöður hafa fengist úr öðrum nýlegum skoðanakönnunum samkvæmt frétt Reuters-fréttaveitunnar.

„Gæti farið á hvorn veginn sem er“

Ríkisstjórn Írlands hefur beitt sér fyrir því að sáttmálinn verði samþykktur og sama er að segja um þrjá stærstu stjórnmálaflokka landsins auk viðskiptalífsins og samtaka bænda. Stuðningsmenn sáttmálans hafa lagt megináherslu á að verði honum hafnað fái Írland ekki frekari fjárhagsstuðning frá Evrópusambandinu auk þess sem það muni hafa slæmar afleiðingar fyrir efnahag landsins. Andstæðingarnir hafa á hinn bóginn sagt að höfnun sáttmálans þýddi að hægt yrði meðal annars að hafna kröfum sambandsins og AGS um frekari aðhaldsaðgerðir auk þess sem samþykkt sáttmálans þýddi aukið framsal á fullveldi Írlands.

Stjórnmálaskýrendur hafa bent á að hátt hlutfall óákveðinna sé frekar höfuðverkur fyrir þá sem eru hlynntir samþykkt sáttmálans en þá sem eru honum andvígir. Haft er eftir Theresa Reidy hjá University College Cork í frétt Reuters að draga megi tvær meginályktanir af því hversu margir séu óákveðnir. „Þjóðaratkvæðið gæti farið á hvorn veginn sem er og kosningabaráttan hingað til hefur ekki skilað miklum árangri við að ná til minnihluta kjósenda.“

Þó Írar hafni sáttmálanum þýðir það ekki að hann nái ekki fram að ganga þar sem einungis þarf samþykki 12 af evruríkjunum 17 til þess. Ástæðan er sú að ekki er um að ræða eiginlegan sáttmála á vettvangi Evrópusambandsins þar sem Bretar höfnuðu því að taka þátt í honum. Því þarf ekki samþykki allra ríkja sambandsins. Írsk höfnun þýðir þá einungis að Írland mun standa utan sáttmálans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert