Fréttaskýring: Írskt þjóðaratkvæði í skugga Grikklands

Reuters

Þjóðar­at­kvæðagreiðsla um svo­nefnd­an fjár­mála­stöðug­leika­sátt­mála inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins fer fram á Írlandi 31. maí næst­kom­andi en Írar eru ein­ir þjóða inn­an sam­bands­ins sem munu kjósa um sátt­mál­ann, sem ætlað er að stuðla að efna­hags­leg­um stöðug­leika á evru­svæðinu og aukn­um samruna inn­an þess, þar sem írska stjórn­ar­skrá­in krefst þess.

Þrátt fyr­ir að ein­ung­is nokkr­ir dag­ar séu í það að þjóðar­at­kvæðið fari fram hef­ur það verið nokkuð fyr­ir utan kast­ljós fjöl­miðlanna og einkum fallið í skugga þeirra at­b­urða sem átt hafa sér stað að und­an­förnu í Grikklandi þar sem stjórn­mála­flokk­ar and­víg­ir því að upp­fylla kröf­ur Evr­ópu­sam­bands­ins og Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins um auk­inn niður­skurð gegn frek­ari fjár­fram­lög­um juku mjög fylgi sitt í þing­kosn­ing­um. Þar sem ekki hef­ur tek­ist að mynda starf­hæfa rík­is­stjórn í Grikklandi í kjöl­far kosn­ing­anna verður kosið þar aft­ur 17. júní næst­kom­andi.

Síðustu skoðanakann­an­ir á Írlandi hafa bent til þess að fleiri séu hlynnt­ir fjár­mála­stöðug­leika­sátt­mál­an­um en and­víg­ir. Þó eru enn mjög marg­ir óákveðnir. Skoðana­könn­un sem fram­kvæmd var fyr­ir írska dag­blaðið Irish in­depend­ent og birt var síðastliðinn fimmtu­dag 17. maí sýndi þannig 37% hlynnt sátt­mál­an­um, 24% and­víg og ríf­lega þriðjung eða 35% óákveðin. Hliðstæðar niður­stöður hafa feng­ist úr öðrum ný­leg­um skoðana­könn­un­um sam­kvæmt frétt Reu­ters-frétta­veit­unn­ar.

„Gæti farið á hvorn veg­inn sem er“

Rík­is­stjórn Írlands hef­ur beitt sér fyr­ir því að sátt­mál­inn verði samþykkt­ur og sama er að segja um þrjá stærstu stjórn­mála­flokka lands­ins auk viðskipta­lífs­ins og sam­taka bænda. Stuðnings­menn sátt­mál­ans hafa lagt megin­á­herslu á að verði hon­um hafnað fái Írland ekki frek­ari fjár­hags­stuðning frá Evr­ópu­sam­band­inu auk þess sem það muni hafa slæm­ar af­leiðing­ar fyr­ir efna­hag lands­ins. And­stæðing­arn­ir hafa á hinn bóg­inn sagt að höfn­un sátt­mál­ans þýddi að hægt yrði meðal ann­ars að hafna kröf­um sam­bands­ins og AGS um frek­ari aðhaldsaðgerðir auk þess sem samþykkt sátt­mál­ans þýddi aukið framsal á full­veldi Írlands.

Stjórn­mála­skýrend­ur hafa bent á að hátt hlut­fall óákveðinna sé frek­ar höfuðverk­ur fyr­ir þá sem eru hlynnt­ir samþykkt sátt­mál­ans en þá sem eru hon­um and­víg­ir. Haft er eft­ir Th­eresa Rei­dy hjá Uni­versity Col­l­e­ge Cork í frétt Reu­ters að draga megi tvær megin­álykt­an­ir af því hversu marg­ir séu óákveðnir. „Þjóðar­at­kvæðið gæti farið á hvorn veg­inn sem er og kosn­inga­bar­átt­an hingað til hef­ur ekki skilað mikl­um ár­angri við að ná til minni­hluta kjós­enda.“

Þó Írar hafni sátt­mál­an­um þýðir það ekki að hann nái ekki fram að ganga þar sem ein­ung­is þarf samþykki 12 af evru­ríkj­un­um 17 til þess. Ástæðan er sú að ekki er um að ræða eig­in­leg­an sátt­mála á vett­vangi Evr­ópu­sam­bands­ins þar sem Bret­ar höfnuðu því að taka þátt í hon­um. Því þarf ekki samþykki allra ríkja sam­bands­ins. Írsk höfn­un þýðir þá ein­ung­is að Írland mun standa utan sátt­mál­ans.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert