Segja Watson fá réttláta meðferð

Paul Watson, stofnandi samtakanna Sea Shepherd, fengi sanngjarna málsmeðferð ef hann yrði framseldur til Kosta Ríka. Framsals hans þangað er krafist, en hann er sakaður um að hafa truflað þar hákarlaveiðar árið 2002 og reynt að myrða einn veiðimannanna. Watson var handtekinn í Þýskalandi í síðustu viku.

Þetta segir forseti Kosta Ríka, Laura Chinchilla. „Málsmeðferð hans yrði í samræmi við stjórnarskrá og alþjóðasáttmála,“ sagði hún a fréttamannafundi með  Joachim Gauck, forseta Þýskalands í dag.

Laus gegn tryggingu

Samtökin Sea Shepherd eru einna þekktust fyrir eltingaleik sinn við japanska hvalveiðimenn við Suðurskautslandið, en Watson og félagar eru Íslendingum einnig kunnir, fyrir að hafa sökkt tveimur íslenskum hvalveiðibátum árið 1986. Watson er stofnandi og leiðtogi samtakanna og var handtekinn á flugvellinum í Frankfurt í síðustu viku. Hann hefur verið látinn laus gegn tryggingargjaldi og þýsk yfirvöld íhuga nú hvort framselja eigi hann til Kosta Ríka.

Watson sagði í samtali við AFP fréttastofuna að hann hefði enga ástæðu til að ætla að hann fengi sanngjarna málsmeðferð í Kosta Ríka. „Ég hef í sjálfu sér ekki áhyggjur af dómskerfinu, heldur vegna þess að hákarlaveiðimannamafían í landinu hefur sett fé til höfuðs mér. Fangelsi í Kosta Ríka væri tilvalinn staður fyrir þau til að ná sér niðri á mér,“ sagði Watson. Hann segist telja að Japanar þrýsti mjög á Þjóðverja að framselja sig.

Snýst um heimshöfin

Nokkur fjöldi stuðningsmanna Watsons var samankominn í miðborg Berlínar í dag og hrópuðu „Frelsið Paul Watson“ og slóst hann í för með þeim.

„Þetta mál snýst ekki um mig. Þetta snýst um heimshöfin og hættuna á því að dýralífið þar deyi út. Þetta snýst um hákarlana, hvalina, selina, sjóskjaldbökurnar og fiskana,“ sagði Watson. Hann sagði að þó hann yrði fangelsaður myndi starfsemi Sea Shepherd ekki lognast út af.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert