Vill skera upp herör gegn mafíunni

Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu.
Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu. AFP

„Ítalir þurfa að berjast miskunnarlaust gegn mafíunni.“ Þetta sagði forsætisráðherra Ítalíu, Mario Monti, í borginni Palermo á Sikiley í dag þar sem þúsundir komu saman til að minnast dómarans Giovanni Falcone sem myrtur var af ítölsku mafíunni.

„Allir landsmenn þurfa að helga sig baráttunni gegn mafíunni. Enginn ætti að standa í þeirri sjálfsblekkingu að hann þurfi ekki að óttast hana,“ sagði Monti.

Morðsins var einnig minnst í fjölmörgum öðrum borgum og bæjum á Ítalíu.

Ítalska þjóðin var skelfingu lostin við morðið á Falcone, en hann lést í sprengjuárás. Þrátt fyrir að ítök mafíunnar hafi minnkað umtalsvert í landinu undanfarna tvo áratugi, er langt í frá að hún sé valdalaus. Auk Falcone létust eiginkona hans, Francesca Morvillo og tveir lífverðir þeirra í árásinni.

Falcone var ötull baráttumaður gegn skipulagðri glæpastarfsemi á Ítalíu og átti mikinn þátt í því að 360 meðlimir mafíunnar voru dæmdir í fangelsi á árunum 1986 og 1987.

Lögregla hafði fljótt hendur í hári sprengjumannsins, Giovanni Brusca og mafíuforingjans Toto Riina og voru þeir báðir dæmdir í lífstíðarfangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka