Gelið sem notað var ólöglega í PIP-brjóstapúðana er ekki eitrað og eykur ekki hættu á heilsufarsvandamálum til langs tíma, segja bresk heilbrigðisyfirvöld. Hins vegar er það staðfest að púðarnir eru tvisvar sinnum líklegri en aðrir brjóstapúðar til að springa inni í líkama kvenna.
Um 400 þúsund konur um allan heim fengu púðana grædda í sig en í þá var sett iðnaðarsílikon, sem m.a. er notað í rúmdýnur.
Fyrirtækið sem framleiddi púðana hætti framleiðslu árið 2010 og heilbrigðisyfirvöld í fjölmörgum löndum, þar á meðal á Íslandi, mæltu með því að púðarnir yrðu fjarlægðir.
Breska heilbrigðisstofnunin segir að konurnar hafi lengi þurft að bíða milli vonar og ótta um efnainnihald púðanna.
„Við höfum skoðað öll gögn mjög gaumgæfilega og getum því gefið konunum góðar ráðleggingar,“ segir Bruce Keogh, prófessor við Bresku heilbrigðisstofnunina. Hann segir að mörg próf hafi verið gerð á púðunum í Bretlandi, Frakklandi og Ástralíu og allar hafi rannsóknirnar leitt í ljós að gelið í púðum er ekki eitrað.
Líkur á því að PIP-brjóstapúði rofni eftir tíu ár í líkama konu eru 15-30% samkvæmt rannsóknarniðurstöðunum, samanborið við 10-14% púða frá öðrum framleiðendum.
Sprungnir púðar hafa valdið einkennum á borð við viðkvæmni í húð og bólgnum eitlum.