Bresk yfirvöld hafa gripið til aðgerða til að stöðva för flutningaskips sem átti að sigla með vopn frá Rússlandi til Sýrlands. Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að talið sé að rússneskar herþyrlur séu um borð í skipinu.
The Standard Club í London, sem er skipatryggingafélag í eigu margra skipafélaga, felldi tryggingu MV Alead úr gildi þegar skipið var á siglingu um 80 km frá norðurströnd Skotlands. Talsmaður The Standard Club segir að það hafi verið gert þar sem eigendur skipsins hafi brotið reglur félagsins. Þetta hafi ekki verið gert að beiðni breskra stjórnvalda.
Fram kemur á vef BBC, að aðgerðin komi í veg fyrir að MV Alead geti haldi siglingunni áfram, eða þar til eigandinn tryggi það á nýjan leik.
William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, segir að skipið muni snúa aftur til Rússlands.
Stjórnvöld í Bretlandi og Bandaríkjunum hafa rætt við Rússa og lýst yfir áhyggjum af vopnaflutningum til Sýrlands, en Evrópusambandið hefur bannað alla vopnasölu til landsins.
Breska utanríkisráðuneytið segir í tilkynningu, að á fundi sem Hague átti með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, 14. júní sl. hafi breski utanríkisráðherrann tjáð Lavrov að það beri að stöðva allar vopnasendingar til Sýrlands.
Bresk stjórnvöld, í samstarfi við önnur ríki, geri allt sem í þeirra valdi standi til að koma í veg fyrir fjöldamorð sýrlenskra stjórnvalda á óbreyttum borgurum.