Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og þýsk stjórnvöld höfðu í höndum upplýsingar um að staðan í ríkisfjármálum Grikklands væri hugsanlega mun verri en opinberar tölur frá grískum stjórnvöldum bentu til í aðdraganda þess að Grikkir tóku upp evruna sem gjaldmiðil sinn fyrir rúmum áratug. Engu að síður var ákveðið að samþykkja aðild Grikklands að evrusvæðinu. Greint er frá þessu í þýska tímaritinu Stern í dag og einnig á fréttavef þess.
Töluvert hefur verið fjallað um það í tengslum við yfirstandandi efnahagserfiðleika Grikklands að þá stöðu mála megi fyrst og fremst rekja til þess að grísk stjórnvöld hafi gefið upp fegraða mynd af stöðu ríkisfjármála landsins áður en þeir urðu aðilar að evrusvæðinu og þannig blekkt Evrópusambandið til þess að leggja blessun sína yfir aðild Grikklands. Fyrir vikið hefði í raun aldrei átt að veita Grikkjum aðild að evrusvæðinu.
Fram kemur meðal annars í frétt Stern að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi í það minnsta tvisvar verið vöruð við því skriflega af hagstofu sambandsins, Eurostat, fyrri hluta árs 1999 að upplýsingar frá grískum stjórnvöldum kynnu að vera rangar. Meðal annars að fjármagn frá Evrópusambandinu væri ranglega notað til þess að fegra stöðuna í ríkisfjármálum Grikklands. Framkvæmdastjórnin hafi hins vegar kosið að hafa þær upplýsingar að engu og mæla með aðild Grikkja að evrusvæðinu.
Ennfremur segir frá því að kanslaraskrifstofunni í Berlín hafi frá því snemma árs 2000 borist nokkur fjöldi skýrslna frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um laka stöðu grísks efnahagslífs. Sérfræðingar framkvæmdastjórnarinnar hafi meðal annars vakið athygli á miklum viðskiptahalla Grikklands og að landið væri mjög háð styrkjum og niðurgreiðslum frá Evrópusambandinu.
Þá hafi einnig verið bent á ýmis hættumerki varðandi samkeppnisstöðu grísks efnahagslífs og að aðild landsins að evrusvæðinu gæti leitt til meiri verðbólgu. Grikkir væru þannig ekki undirbúnir fyrir þær efnahagslegu breytingar sem gætu orðið við aðildina að evrusvæðinu og upptöku evrunnar.
Bent er á í fréttinni að Gerhard Schröder, þáverandi kanslari Þýskalands, hafi á sínum tíma ávallt vísað til jákvæðar afstöðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til aðildar Grikklands að evrusvæðinu sem rök fyrir því að rétt hafi verið að samþykkja aðild landsins.
Fram kemur í lok fréttarinnar að ekki hafi fengist svör frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eða þýsku kanslaraskrifstofunni við spurningum Stern vegna þessara upplýsinga þegar óskað var eftir viðbrögðum vegna málsins.