Hættuástand í Mombasa

Lögreglumenn í Kenía.
Lögreglumenn í Kenía.

Talið er að mikil hætta sé á hryðjuverkum í Mombasa í Kenía á næstu dögum. Bandaríska sendiráðið í þar í landi sendi í morgun frá sér viðvörun til bandarískra ríkisborgara þar sem þeim er ráðlagt að forðast Mombasa á næstu dögum.

Í tilkynningu frá sendiráðinu segir að borist hafi upplýsingar um að verið sé að skipuleggja hryðjuverk í Mombasa sem er önnur stærsta borg Kenía á eftir höfuðborginni Naíróbí.

Lögregluyfirvöld í Kenía handtóku nýlega tvo íranska ríkisborgara sem eru grunaðir um að tengjast hugsanlegum sprengjuárásum í Mombasa og Naíróbí. Annar var handtekinn í Naíróbí en hinn í Mombasa.

Hryðjuverkaárásir hafa færst í aukana í Kenía síðan her landsins réðst inn í Sómalíu í október á síðasta ári. Tilgangur þess var að berjast gegn Shebab, vígasveitunum sem hafa náin tengsl við Al-Kaída hryðjuverkasamtökin. Talið er að Shebab sveitirnar standi fyrir árásunum.

Þann 7. ágúst árið 1998 sprengdu hryðjuverkamenn Al-Kaída sendiráð Bandaríkjanna í Naíróbí. Sama dag voru líka framkvæmd hryðjuverk í sendiráði Bandaríkjanna í Dar-es-Salaam í Tansaníu en þá voru nákvæmlega átta ár frá því bandaríski herinn kom upp bækistöð í Sádi-Arabíu. Árásirnar 1998 voru gríðarlega mannskæðar en í kjölfar þeirra rataði Osama bin Laden í fyrsta sinn á topp tíu lista FBI yfir eftirlýsta menn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert