Stjórnvöld í Tyrklandi hafa viðurkennt að tyrknesk orrustuþota sem loftvarnarsveitir í Sýrlandi skutu niður á dögunum kunni að hafa verið í sýrlenskri lofthelgi þegar atburðurinn átti sér stað. Þetta kemur fram á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph í dag.
Hins vegar sagði forseti Tyrklands, Abdullah Gul, við fjölmiðla í morgun að sýrlenski herinn hefði ekki haft neina ástæðu til þess að líta svo á að um fjandsamlega aðgerð væri að ræða.
„Það er ekkert óeðlilegt að orrustuflugvélar fljúgi stundum út fyrir landamæri þegar haft er í huga hversu hratt þær fara,“ sagði Gul. Slíkt væri alls ekki hugsað í fjandsamlegum tilgangi heldur gerðist það einfaldlega vegna hraða vélanna.