Tyrkneska þotan á alþjóðlegu svæði

Orrustuþota af gerðinni F-4 Phantom.
Orrustuþota af gerðinni F-4 Phantom. mbl.is

Utanríkisráðherra Tyrklands, Ahmet Davutoglu, sagði í sjónvarpsviðtali í dag að tyrkneska orrustuþotan sem sýrlenski herinn skaut niður á föstudag hefði verið í alþjóðlegri lofthelgi þegar atburðurinn átti sér stað en skömmu áður hefði hún farið í stutta stund inn í lofthelgi Sýrlands.

Forseti Tyrklands, Abdullah Gul, sagði í gær að hugsanlegt væri að orrustuþotan, sem var af gerðinni F-4 Phantom, hefði verið í sýrlenskri lofthelgi þegar hún var skotin niður en Davutoglu sagði að samkvæmt útreikningum ráðuneytis hans hefði þotan verið í alþjóðlegri lofthelgi eins og áður segir samkvæmt frétt AFP.

„Flugvélin sýndi engin merki um fjandskap í garð Sýrlands og var skotin niður um 15 mínútum eftir að hafa farið í skamma stund inn í lofthelgi Sýrlands,“ sagði Davutoglu og bætti við að engar viðvaranir hefðu komið frá stjórnvöldum í Sýrlandi áður en þotan var skotin niður en hún hefði verið óvopnuð þar sem hún tók þátt í prófum á radarkerfum tyrkneska hersins. Þá fullyrti Davutoglu að Sýrlendingum hefði verið fullkunnugt um að orrustuþotan væri tyrknesk og hvaða tilgangur hefði verið með flugi hennar.

Haft er ennfremur eftir forsætisráðherra Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, í frétt AFP að stjórn hans myndi fara yfir allar staðreyndir málsins áður en tekin yrði ákvörðun um næstu skref í því.

Fram kemur í fréttinni að tyrknesk stjórnvöld hafi verið mjög gagnrýnin á framgöngu ráðamanna í Sýrlandi gegn uppreisnarmönnum í landinu og hafi tekið við tugum þúsunda flóttamanna frá landinu síðan átökin þar hófust. Fyrr í þessum mánuði hafi Tyrkland ennfremur verið gestgjafi á fundi þar sem ýmsir andstæðingar stjórnvalda í Sýrlandi hafi komið saman til þess að ræða stöðu mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert