Ungur karlmaður frá Túnis hefur tapað áfrýjunarmáli fyrir þarlendum dómstólum en hann var í undirrétti í mars dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir að birta teiknimyndir af Múhameð spámanni á samskiptavefnum Facebook. Lögmaður mannsins segir dóminn mannréttindabrot.
Upphaflega voru tveir menn dæmdir vegna teiknimyndanna en annar þeirra er talinn vera í felum í Evrópu. Hinn maðurinn, Jabeur Mejri, íhugar að áfrýja málinu til æðsta dómstól landsins. „Þungur dómur sem þessi ætti raunar að teljast til pyntinga,“ sagði Ahmed Msalmi, lögmaður mannsins. Hann vildi að tekið yrði tillit til þess að Mejri eigi við geðræn vandamál að stríða og hafi til að mynda verið án atvinnu í sex ár.