Þýskur dómstóll í Köln hefur úrskurðað að umskurn drengja sem ekki er gerð af læknisfræðilegri þörf teljist líkamsárás. Dómurinn hefur valdið uppnámi meðal gyðinga og múslima í Þýskalandi. Þetta kemur fram í frétt thelocal.de um málið.
Málið var rekið gegn íslömskum lækni eftir að umskurn sem hann framdi á dreng olli honum skaða. Í dóminum sagði að ónauðsynleg umskurn væri „alvarlegt og óbreytanlegt inngrip í mannslíkamann“. Dómurinn þýðir að umskurnir sem framdar eru af trúarlegum ástæðum, s.s. í gyðingdómi og íslam, eru ólöglegar, en þúsundir ungra drengja eru umskornir á hverju ári í Þýskalandi.
Trúarleg umskurn hefur frá lagasjónarmiði hingað til verið á gráu svæði í Þýskalandi, og hafa læknar geta séð um aðgerðina í skjóli þess að það væri ekki formlega bannað með lögum að umskera börn. Nú væri búið að loka á þá vernd.
Trúarhópar gyðinga og múslima hafa barist gegn formlegu banni á umskurn. Fulltrúar þeirra áttu eftir að kynna sér dóminn og vildu því ekki segja álit sitt á honum. Hins vegar er líklegt að dóminum verði áfrýjað alla leið til stjórnarskrárdómstóls Þýskalands.