Fram kemur í niðurstöðum lokaskýrslu franskra flugmálayfirvalda (BEA) vegna flugslyssins sem varð árið 2009, þegar Airbus A330 farþegaþota Air France hrapaði í Atlantshafið með þeim afleiðingum að 228 manns týndu lífi, að orsakir slyssins hafi verið bæði af mannlegum og tæknilegum ástæðum. Þetta kemur fram hjá AFP-fréttaveitunni en skýrslan var gerð opinber í dag.
Í niðurstöðunum skýrslunnar eru lagðar til 25 nýjar tillögur vegna öryggismála til viðbótar við þær 25 tillögur sem komu fram í skýrslu BEA í júlí á síðasta ári. Þar eru meðal annars gerðar athugasemdir við vinnuvistfræði um borð í Airbus A330 farþegaþotum sem og óviðeigandi framgöngu flugmannanna undir því mikla álagi sem þeir voru rétt áður en þotan hrapaði.
Í skýrslunni segir að upphafið megi rekja til þess að hraðanemar þotunnar, sem framleiddir hafi verið af franska fyrirtækinu Thales, hafi ekki virkað. Frá slysinu hafi þeim hins vegar verið skipt út í öllum Airbus þotum. Á blaðamannafundi sagði yfirmaður rannsóknarinnar, Alain Bouillard, ennfremur að áhöfn þotunnar hafi nánast enga stjórn haft á ástandinu sem skapaðist.
Þá segir í frétt AFP að í skýrslunni sé lögð áhersla á mikilvægi þess að flugmenn hljóti þjálfun til þess að hafa betri yfirsýn yfir stjórnkerfi farþegaþotna þegar upp komi óvenjulegar aðstæður.