Dómari í Flórída hefur ákveðið að George Zimmerman þurfi að leggja fram eina milljón (125 milljónir króna) í tryggingu til að losna úr fangelsi. Hann er ákærður fyrir að hafa skotið Trayvon Martin í febrúar. Zimmerman segir að hann hafi skotið á hann í sjálfsvörn.
Martin, sem var 17 ára þegar hann lést, var að flýta sér heim um kvöld þegar hann var skotinn. Zimmerman var í nágrannavörslu og fannst Martin vera grunsamlegur. Viðbrögð lögreglu við málinu kallaði á mótmæli víða um Bandaríkin en yfirvöld voru sökuð um að taka málið ekki alvarlega vegna þess að Martin var blökkumaður.
Dómari hafði á fyrri stigum málsins gert Zimmerman að leggja fram 150 þúsund dollara tryggingu. Honum var sleppt úr haldi í kjölfarið. Síðar fékk dómari upplýsingar sem bentu til að Zimmerman hefði ekki gefið réttar upplýsingar um fjárhag sinn, en hann hafði ekki gefið upplýsingar um fjársöfnun sem fjölskylda hans setti í gang vegna dómsmálsins.
Zimmerman var því handtekinn á ný og settur inn. Nú hefur dómarinn ákveðið upphæð tryggingar að nýju og hækkað hana upp í eina milljón dollara. Eftir á að koma í ljós hvernig Zimmerman gengur að reiða fram upphæðina.