George Zimmerman, sem er ákærður fyrir að skjóta þeldökkan óvopnaðan táning til bana í Flórída, er aftur laus úr fangelsi eftir að hafa greitt eina milljón dala í tryggingu. Þetta er í annað sinn sem dómari krefur Zimmerman um greiðslu tryggingar.
Zimmerman var á nágrannavakt þegar hann skaut hinn 17 ára gamla Trayvon Martin til bana í febrúar sl. Zimmerman heldur því fram að hann hafi skotið Martin í sjálfsvörn í kjölfar átaka.
Upphaflega var honum gert að greiða 150.000 dali í tryggingargjald. Það gerði Zimmerman og var honum þá sleppt úr fangelsi. Þegar saksóknarar bentu á að Zimmermann hefði gefið upp rangar upplýsingar um eigin fjárhag sendi dómarin hann aftur í steininn og hækkaði gjaldið í eina milljón dali. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.
Fram kemur að móðir Martins hafi orðið fyrir vonbrigðum með þá ákvörðun að leyfa Zimmerman að losna gegn greiðslu tryggingargjalds í annað sinn. Hún sagði á blaðamannafundi í dag það það væri sárt að vita til þess að maðurinn sem skaut son sinn til bana myndi mögulega fá að ganga um sem frjáls maður.
Zimmerman losnaði úr fangelsinu í Seminole sýslu tæpum sólarhring eftir að dómarinn gerði honum að greiða nýtt gjald.
Honum er hins vegar gert að gangast undir hertara eftrlit að þessu sinni. Er honum gert að ganga með rafrænan eftirlitsbúnað, honum er bannað að yfirgefa sýsluna og þá má hann ekki koma nálægt alþjóðaflugvellinum í Orlando.
Málið hefur vakið heitar deilur og klofið Bandaríkjamenn í tvær fylkingar.
Það var ekki fyrr en sex vikum eftir skotárásina sem lögreglan í Flórída handtók Zimmerman. Afar umdeild lög eru í gildi í ríkinu sem kallast á ensku „stand your ground“. Samkvæmt er íbúum heimillt veita mönnum banvæna áverka sé þeim verulega ógnað.