Hákarl beit mann í tvennt

Hvítháfur beit brimbrettakappa í tvennt við vesturströnd Ástralíu í morgun.
Hvítháfur beit brimbrettakappa í tvennt við vesturströnd Ástralíu í morgun. AFP

Ungur brimbrettakappi lét lífið þegar hákarl beit hann bókstaflega í tvennt undan vesturströnd Ástralíu í morgun. Árás hákarlsins átti sér stað við Wedge-eyju sem er norður af Perth þar sem fórnarlambið steig öldurnar á brimbretti ásamt vini sínum.

Fórnarlambið var rétt rúmlega tvítugt að aldri.

Sjónarvottur segir árásina hafa verið einstaklega ógeðfellda en hákarlinn hafi rifið brimbrettakappann í sundur. „Það var blóð um allt og risa-risastór hvítháfur hringsólaði í kringum lík mannsins,“ sagði sjónarvotturinn við sjónvarpsstöðina ABC. Hann giskaði á að hákarlinn hefði verið um fimm metrar að lengd. „Ég átti leið hjá á vatnsketti og reyndi að veiða lík mannsins upp úr sjónum en þá gerði hákarlinn atlögu að mér.“

Hákarlinn var hvítháfur sem er ein stærsta og hættulegasta tegund hákarla í heiminum. Slíkir hákarlar geta orðið allt að sex metra langir og vegið allt að því tvö tonn. Þess má geta að í kvikmyndinni „Ókindin“ eða „Jaws“ var hákarlinn af umræddri tegund.

Umfangsmikil leit stendur nú yfir að líkamsleifum mannsins. Fiskimönnum á svæðinu hefur verið gert viðvart um hákarlinn og þeir beðnir að drepa hann gefist þeim færi á því.

Þetta mun vera í fimmta sinn síðan í september sl. sem hákarl drepur mann á þessum slóðum en vesturströnd Ástralíu er að mati vísindamanna einn hættulegasti staður í heimi m.t.t. árása hákarla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert