Sprenging varð í skipi á Atlantshafi

Enn logar í flutningaskipinu MSC Flaminia.
Enn logar í flutningaskipinu MSC Flaminia. Skjáskot/odin.tc

Flutningaskipið MSC Flaminia rekur nú um Atlantshaf, um þúsund sjómílur frá landi, eftir að sprenging varð í lestarrými þess á laugardag. Enn stígur mikill og svartur reykur frá skipinu en ekki er búist við að dráttarbátur með búnaði til að berjast við eldinn komi að fyrr en á morgun. Einn úr áhöfninni er látinn, annar á gjörgæsludeild og eins er saknað.

Neyðarkall barst frá skipinu á laugardagsmorgun þegar það var svo gott sem mitt á milli Kanada og Bretlandseyja. Skipið sem siglir undir þýskum fána var á leið frá austurströnd Bandaríkjanna til Antwerpen í Belgíu. Ekki er vitað hvers vegna sprenging varð í lestarrýminu en í kjölfar hennar kviknaði mikill eldur.

Áhöfn 25 manna yfirgaf skipið í skyndi, fyrir utan einn sem er saknað og talinn af, og var þeim bjargað um borð í olíuflutningaskipið VLCC DS Crown. Ekki reyndist unnt að notast við björgunarþyrlur vegna þess hversu langt skipið var frá landi.

Fjórir slösuðust og voru þeir síðar fluttir yfir í flutningaskipið MSC Stella þar sem einn lést af brunasárum sínum. Hinir þrír voru fluttir frá Stellu með þyrlu til Asor-eyja, einn af þeim liggur í lífshættu á gjörgæsludeild.

MSC Flaminia er 85,823 tonna skip sem tekur 6,750 tuttugu feta gáma. Það er nærri þrjú hundruð metra langt og fjörutíu metra breitt.

MSC Flaminia var statt þar sem græna örin er þegar …
MSC Flaminia var statt þar sem græna örin er þegar neyðarkallið barst. Skjáskot/GoogleMaps
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert