George Zimmerman, sem er ákærður fyrir að hafa skotið óvopnaðan táning til bana, segist iðrast gjörða sinna. Hann kveðst hvorki vera kynþáttahatari né morðingi.
Þetta kemur fram í viðtali sem Fox News-sjónvarpsstöðin tók við Zimmerman, sem losnaði nýverið úr fangelsi eftir að hafa greitt eina milljón dali í tryggingu.
Hann heldur því enn fram að Trayvon Martin hafi ráðist á sig og að hann hafi skotið piltinn í sjálfsvörn í kjölfar átaka.
Atvikið átti sér stað í Flórída og í framhaldinu upphófust miklar deilur í Bandaríkjunum í tengslum við kynþáttafordóma.
Zimmerman, sem sinnti nágrannagæslu í sjálfboðastarfi, heldur því fram að hann hafi ekki beint sjónum sínum sérstaklega að Martin vegna þess að pilturinn hafi verið þeldökkur.
„Ég er ekki kynþáttahatari og ég er ekki morðingi,“ sagði Zimmerman í viðtalinu.
„Mér þykir leitt að þau hafi þurft að jarða son sinn. Ég get ekki ímyndað mér hvernig sú tillfinning er, og ég bið fyrir þeim á hverjum degi,“ sagði Zimmerman þegar hann var spurður hvort hann vildi segja eitthvað við foreldra piltsins.
„Ég óska þess að það hafi verið eitthvað - hvað sem er - sem ég hefði getað gert til að forða mér frá þeirri aðstöðu að þurfa að taka líf hans,“ bætti hann við.
Faðir Martins er sagður vera ósáttur við þau ummæli sem Zimmerman lét falla í viðtalinu varðandi það að atvikið væri hluti af guðs vilja.
„Við hljótum að tilbiðja ólíka guði. Það er ekki mögulegt að minn guð hafi viljað að George Zimmerman myndi myrða son minn,“ sagði Tracy Martin í samtali við Associated Press.