Sex ára gömul stúlka var á meðal þeirra tólf sem létust í skotárás í kvikmyndahúsi í Bandaríkjunum um helgina. Barnshafandi móðir hennar var skotin í háls og fót en lifði af. Jafnframt er talið að ófætt barn hennar hafi ekki borið skaða af árásinni.
The Daily Telegraph hefur eftir bróður hennar, Robert Sierra, að ótrúlegt sé að barnið sé ómeitt. „Það er kraftaverk að hún hafi ekki verið skotin í magann.“ Talið er að móðirin, Ashley Moser, verði lömuð eftir árásina.
Hún var flutt á sjúkrahús í kjölfar árásarinnar og í ljósi þess að hún missti ítrekað meðvitund fengu fjölskyldumeðlimir hennar sig ekki til þess að segja henni frá því að dóttir hennar hefði látist af sárum sínum.
Amma hennar, Jean Moser, sagði í samtali við The Daily Telegraph að læknar hefðu ráðlagt þeim að færa henni ekki fréttirnar strax þar sem ástand hennar væri ennþá of óstöðugt og alvarlegt.
Hún fékk þó fréttirnar á laugardagskvöld. „Hún tók þeim afar illa. Hún fékk áfall,“ sagði Jean.
Barack Obama kom til Aurora í gærkvöld til að hitta fórnarlömb og fjölskyldur þeirra. Hann hefur jafnframt frestað kosningabaráttu sinni um viku í ljósi fjöldamorðanna. Hann og Mitt Romney, mótframbjóðandi hans, sæta nú þrýstingi um að taka byssueign í Bandaríkjunum til umfjöllunar í kosningabaráttunni.
James Holmes, sem sakaður er um árásina, verður færður fyrir dóm síðar í dag og yfirvöld hafa gefið út að hann sýni engin merki um samstarfsvilja og að það gæti tekið nokkra mánuði að leiða í ljós hvað fékk hann til þess að framkvæma voðaverkin.