Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, kom til Aurora í Colorado í gær. Hann heimsótti spítala bæjarins þar sem hann ræddi við fjölskyldur fórnarlamba skotárásarinnar í kvikmyndahúsi á fimmtudagskvöld en þar létu 12 manns lífið og 58 særðust, nokkrir lífshættulega.
„Ég viðurkenndi fyrir fjölskyldunum að í aðstæðum sem þessum séu orð ein og sér ekki nóg,“ sagði Obama eftir heimsóknina og bætti við að þarna hefði honum gefist tækifæri til að faðma fólk og fella með því tár en einnig hlæja með því þegar það minntist gleðilegra stunda í lífi ástvina sinna.
Þúsundir tóku þátt í minningarathöfn í Aurora í gærkvöldi. Kveikt var á kertum og beðið fyrir fjölskyldum fórnarlambanna og fyrir hinum slösuðu.