Skotmaðurinn í Aurora fyrir dómara

Íbúar í Aurora minnast hinna látnu.
Íbúar í Aurora minnast hinna látnu. AFP

Maður, sem sakaður er um að hafa skotið á og myrt gesti kvikmyndahúss í Aurora í Coloradoríki í Bandaríkjunum á fimmtudaginn, kemur fyrir dómara í dag. 

Maðurinn, James Holmes 24 ára, er sakaður um að hafa myrt 12 manns og sært 58. Meðal þeirra látnu er sex ára stúlka sem var með móður sinni í kvikmyndahúsinu. Leitt hefur verið líkum að því að hefði riffill Holmes ekki staðið á sér hefðu fleiri legið í valnum. Hann skaut af árásarriffli, sem á að geta skotið 50-60 sinnum á mínútu.

Nokkurn tíma tók fyrir lögreglu að komast inn í íbúð Holmes, en þar hafði hann lagt ýmsar sprengigildrur til þess ætlaðar að bana hverjum þeim er færi inn í íbúðina. Lögreglu tókst að gera sprengjurnar óvirkar og hefur nú lagt hald á tölvu hans, þar sem búist er við að vísbendingar um ástæðu voðaverkanna sé að finna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert