Fjöldamorðinginn skráður á einkamálasíðu

Fjöldamorðinginn James Holmes var leiddur fyrir dómara í gær.
Fjöldamorðinginn James Holmes var leiddur fyrir dómara í gær. AFP

James Holmes, sem skaut 12 til bana og særði tugi í skotárás í kvikmyndahúsi í Colorado, var virkur notandi einkamálasíðunnar Match.com.

 Holmes kallaði sig „Classic_Jim“ á síðunni, sagðist vera 24 ára karlmaður í leit að „stelpum sem vilja vera með strákum.“ Með þessari lýsingu fylgdi kunnugleg mynd: Holmes með hárið litað appelsínugult og síða barta, en þannig mætti hann einnig fyrir dómara í gær. Vefsíðan hefur nú fjarlægt auglýsingu Holmes.

„Þegar við fengum ábendingu um að maður að nafni James Holmes væri skráður hjá okkur eyddum við honum þegar í stað úr tölvukerfi okkar,“ sagði talsmaður einkamálasíðunnar í yfirlýsingu í gær.

Slúðursíðan TMZ.com greindi fyrst frá tilvist auglýsingarinnar.

Í auglýsingunni segist Holmes hafa meðaltekjur og að stjórnmálaskoðanir sínar séu í miðju stjórnmálarófsins.

Lögreglan er einnig að rannsaka hvort Holmes hafi verið skráður á klámsíðu, Adult Friend Finder. Maður sem líkist Holmes var skráður á síðuna og auglýsti þar eftir kynnum við konur, pör eða hóp fólks með „leynilegt samband“ í huga. Auglýsingin var búin til 5. júlí síðastliðinn og var síðast skoðuð af þeim sem skráði hana þremur dögum fyrir skotárásina.

Frétt LA Times um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert