Bale heimsótti særða á sjúkrahúsi

Myndavélar verða ekki leyfðar í dómsal í næstu viku þegar James Holmes, sem er sakaður um að hafa myrt 12 og sært 58 í skothríð í kvikmyndahúsi í síðustu viku, verður formlega ákærður.

Fjölmiðlar í Colorado óskuðu eftir að fá að hafa ljósmyndara og myndatökumenn í dómsalnum en dómarinn William Sylvester neitaði. Lögmaður Holmes hafði óskað eftir að beiðninni yrði neitað. Upptökur eru til af því þegar Holmes var leiddur fyrir dómara á mánudaginn.

Að sögn fréttastofu ABC er Holmes látinn bera sérstaka grímu vegna þess að hann hrækti í sífellu á fangaverði.

Nokkrir ættingjar fórnarlamba skotárásarinnar hafa hvatt fjölmiðla til að birta ekki myndir af Holmes og forðast að nota nafn hans. „Ég vil ekki að fjölmiðlar birti nafn hans í sífellu,“ sagði Jordan Ghawi en systir hans Jessica lést í kvikmyndahúsinu.

Eins og margoft hefur komið fram hóf Holmes skothríð skömmu eftir að sýning hófst á nýjustu Batman-myndinni The Dark Knight Rises í kvikmyndahúsi í Aurora í Colorado. Aðalleikarinn Christian Bale heimsótti spítalann í Aurora í gær og heilsaði upp á þá sem særðust í árásinni. Að sögn starfsmanns sjúkrahússins hafði Bale beðið um að fá að koma í heimsókn en óskaði eftir því að fjölmiðlar yrðu ekki látnir vita. Bale hitti einnig sjúkraflutningamenn, lækna og lögreglumenn sem komu að því að sinna fólki eftir skotárásina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert