Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að James Holmes, sem er sakaður um að hafa myrt 12 og sært 58 í skothríð í kvikmyndahúsi í Aurora í Colorado síðustu viku, hafi sent pakka til geðlæknis í háskólanum þar sem hann var eitt sinn við nám. Í pakkanum hafi verið að finna glósubók og teikningar sem lýstu því hvernig hann ætlaði að fremja fjöldamorð.
Fréttamönnum ber ekki saman um það hvenær pakkinn á að hafa borist skólanum, hvort það hafi verið nógu snemma til að hægt hefði verið að koma í veg fyrir skotárásina. Greindu sumir frá því í gær að pakkinn hefði legið óopnaður í póstmiðstöð skólans dögum saman.
Fox News hefur eftir ónafngreindum heimildarmanni innan lögreglunnar að pakkinn, með nafni og heimilisfangi Holmes á bakhliðinni, hafi borist Háskólanum í Colorado 12. júlí og ekki verið opnaður fyrr en nokkrum dögum eftir fjöldamorðið. „Inni í pakkanum var glósubók þar sem því var lýst í smáatriðum hvernig hann ætlaði að drepa fólk. Í henni voru líka teikningar sem sýndu hvað hann ætlaði að gera, teikningar af fjöldamorðinu,“ sagði heimildarmaðurinn.
Annar heimildarmaður í lögreglunni sem ræddi við Fox News sagði að ekki hefði fengist staðfest að pakkinn hefði borist skólanum áður en Holmes lét til skarar skríða. Dagblaðið The Denver Post segir að pakkinn hafi borist skólanum nokkrum dögum eftir skotárásina.