Ekkert hefur enn spurst til tólf ára breskrar stúlku sem hvarf fyrir viku í London. Tia Sharp fór frá heimili ömmu sinar síðasta föstudag og sagðist vera að fara að versla.
Um 80 lögreglumenn leita Tiu en engar vísbendingar hafa komið fram um hvarf hennar þrátt fyrir að málið hafi fengið mikla fjölmiðlaumfjöllun.
Amma stúlkunnar er talin vera síðasta manneskjan sem sá Tiu en sambýlismaður hennar, Stuart Hazell, hefur verið yfirheyrður sem vitni í málinu. Hann hefur neitað að eiga nokkurn þátt í hvarfi hennar.
Lögreglan sá tilefni til þess í dag að taka fram að ekkert benti til þess að hvarf Tiu hefði verið sviðsett, líkt og gerðist fyrir fjórum árum í máli Shannon Matthews. Lögreglan segir slíkar kenningar skaðlegar fyrir rannsókn málsins. Móðir þeirrar stúlku var dæmd í fangelsi árið 2008 fyrir að hafa sviðsett hvarf dóttur sinnar.
Í dag er m.a. leitað á ruslahaugum í nágrenni heimilis stúlkunnar. Þá er einnig verið að fara ítarlega í gegnum upptökur úr fjölda eftirlitsmyndavéla á svæðinu.