Viðurkennir morð og ber fyrir sig taugaáfall

Kínverska kaupsýslukonan og lögfræðingurinn Gu Kailai hefur viðurkennt að hafa myrt breska kaupsýslumanninn Neil Heywood. Í ríkisfjölmiðlum í Kína kemur fram að Gu beri fyrir sig að hún hafi orðið fyrir taugaáfalli.

Gu er eiginkona stjórnmálamannsins Bos Xilais, leiðtoga kommúnistaflokksins í Chongqing, en hann var sviptur embættum sínum meðan á rannsókn málsins stóð.

Gu Kailai sagði við réttarhöldin að hún hefði eitrað fyrir Neil Heywood eftir að hafa verið þvinguð fram af bjargbrún óttans um að sonur hennar væri í hættu. Xinhua-fréttastofan birti seint í gærkvöldi samantekt um réttarhöldin.

Allt bendir því til þess að Gu Kailai verði dæmd í lífstíðarfangelsi en talið er að dómur verði kveðinn upp í málinu innan tveggja vikna.

Morðið á Heywood er eitt mesta hneykslismálið sem komið hefur upp í kínverskum stjórnmálum lengi en Bo var ein helsta vonarstjarna kínverska kommúnistaflokksins.

Í frétt Xinhua kemur fram að Gu hafi sagt við réttarhöldin að hún hafi fengið taugaáfall í nóvember eftir að hafa fengið upplýsingar um að sonur hennar væri í hættu.

Forsaga málsins er sú að Neil Heywood, 41 árs, fannst látinn á hótelherbergi sínu í Chongqing 14. nóvember síðastliðinn. Í fyrstu var talið að banamein hans hefði verið hjartaáfall í kjölfar ofdrykkju en við þá niðurstöðu felldu aðstandendur Heywoods sig ekki. Sögðu hann hafa verið hófsmann í drykkju.

Hófst þá rannsókn á andlátinu og eftir dúk og disk bárust böndin að Gu en Heywood átti í viðskiptum við son þeirra Bos, Bo Guagua. Svo virðist sem þau viðskipti, þar sem 130 milljónir sterlingspunda eru sagðar hafa átt að skipta um hendur, hafi farið úr böndum og Heywood í kjölfarið hótað bréflega að koma Bo yngri á kné.

Það mál hefur örugglega verið rætt þegar Gu fór að finna Heywood á hótelherbergi hans kvöldið örlagaríka. Fregnir úr dómsal herma að þau hafi setið að drykkju uns Heywood varð bumbult og seldi upp. Gu mun þá hafa boðist til að sækja vatn handa honum og notað tækifærið til að byrla honum eitur með þeim afleiðingum að hann lést.

Gu var tekin höndum í apríl og formlega ákærð fyrir morðið á Heywood í lok síðasta mánaðar.

Bo yngri dvelst nú í Bandaríkjunum en hann lauk námi frá Harvard fyrr á þessu ári. Í orðsendingu til Reuters-fréttastofunnar í vikunni hafnaði hann ekki tilvist hótunarbréfsins en sagði af og frá að 130 milljónir punda hefðu verið í spilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert