Dauðadómur yfir Gu Kailai

Eiginkona kínverska stjórnamálamannsins Bo Xilai var í morgun dæmd til dauða fyrir að myrða breska kaupsýslumanninn Neil Heywood. Gu Kailai hlaut skilorðsbundinn dauðadóm, sem yfirleitt er breytt í lífstíðardóm í Kína.

Málið hefur vakið heimsathygli en Gu er eiginkona stjórnmálamannsins Bos Xilais, leiðtoga kommúnistaflokksins í Chongqing og borgarstjóra þar í borg, en hann var sviptur embættum sínum meðan á rannsókn málsins stóð og hefur ekki sést opinberlega síðan rannsókn hófst á máli eiginkonu hans. 

Fram kemur á vef BBC að samkvæmt kínverskum fjölmiðlum hafi Gu játað fyrir dóminum að hafa byrlað Neil Heywood eitur á hótelherbergi hans í Chongqing í nóvember. Aðstoðarmaður hennar var dæmdur sekur sem vitorðsmaður og hlaut 9 ára fangelsisdóm. 

Heywood átti í viðskiptum við son þeirra hjóna, Bo Guagua. Svo virðist sem þau viðskipti, þar sem 130 milljónir sterlingspunda eru sagðar hafa átt að skipta um eigendur, hafi farið úr böndum og Heywood í kjölfarið hótað bréflega að koma Bo yngri á kné. Gu bar fyrir dómi að hún hafi fengið taugaáfall í kjölfar deilna sonar hennar við Heywood.

Mikið var tíst og bloggað um dóminn í Kína strax og hann féll og segir BBC að innan tveggja ára hafi a.m.k. 2 milljón færslur verið komnar fram með lykilorðinu „skilorðsbundinn dauðadómur".

Gu Kailai fyrir dóminum í Hefei.
Gu Kailai fyrir dóminum í Hefei. CCTV
He Zhengsheng, lögmaður fjölskyldu Neils Heywood, umkringdur fjölmiðlamönnum eftir dómsuppkvaðninguna …
He Zhengsheng, lögmaður fjölskyldu Neils Heywood, umkringdur fjölmiðlamönnum eftir dómsuppkvaðninguna í morgun. AFP
Bo Xilai
Bo Xilai AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert