Orðrómur um að Gu Kailai, sem á dögunum var dæmd til dauðarefsingar fyrir morð í Kína, hafi í raun ekki verið viðstödd réttarhöldin heldur tvífari hennar flýgur nú fjöllum hærra í vestrænum fjölmiðlum.
Fjölmargir kínverskir bloggarar hafa haldið því fram að tvífari hafi verið sendur til að afplána refsinguna í stað Kailai, sem þekktust er fyrir að hafa verið eiginkona hins þekkta kínverska stjórnmálamanns Bo Xilai.
Réttarhöldin hafa vakið gríðarlega athygli í Kína, en Kailai var dæmd til dauða fyrir morðið á breska kaupsýslumanninum Neil Heywood.
Breska viðskiptaritið Financial Times birti á dögunum grein um málið, en í henni kemur fram að tveir sérfræðingar í andlitsdráttasamanburði og -rannsóknum hafi báðir komist að þeirri niðurstöðu að konan sem sat réttarhöldin væri ekki Gu Kailai.
Kínverskir bloggarar hafa sem fyrr segir komist að sömu niðurstöðu, og birtust þúsundir greina um kenninguna á síðustu dögum. Nú er svo komið að orðið „tvífari“ hefur verið fjarlægt úr kínverskum leitarvélum og samfélagsmiðlum eftir að flóðbylgja leita og umræðna sem innihélt orðið tvífari reið yfir internetið.
Bannið hefur þó aðeins haft fleiri samsæriskenningar í för með sér og heldur einn bloggari því fram að öruggt sé að um tvífara sé að ræða, og að viðkomandi tvífari sé hin 46 ára gamla Lang Fang frá borginni Zhao Tianyun.
Ekki fyrsti tvífarinn í sögunni
Séu myndir af hinni 53 ára gömlu Kailai frá því fyrir réttarhöldin og meðan á þeim stóð bornar saman má merkja að andlit hennar virðist fyllra meðan á réttarhöldunum stendur en áður en þau hófust auk þess sem einhverjir vilja meina að eyru hennar hafi breyst.
Samkvæmt taívanska dagblaðinu Want China Times hefur ættleidd systir stjórnmálamannsins Bo Xilai lýst því yfir að konan í réttarhöldunum sé ekki Kailai, en hún átti mikil samskipti við Kailai meðan á hjónabandi þeirra stóð.
Samkvæmt því sem fram kemur í skrifum á vefnum slate.com er tvífarafyrirbærið alls ekki óþekkt í Kína og að óteljandi vestrænir ferðamenn hafi borið því vitni í bókum sínum. Þá sé fátækum Kínverjum sem eru reiðubúnir að taka á sig refsinguna sem fyrir liggur, boðnir gull og grænir skógar fyrir afplánunina. Meðal annars er fólki lofað að séð verði fyrir fjölskyldum þeirra eða að börnum þeirra verði tryggð menntun.
Kailai var dæmd til skilorðsbundinnar dauðarefsingar, sem þýðir að hún mun að öllum líkindum eyða ævinni bak við lás og slá. Dauðarefsingunni verður aðeins framfylgt ef hún verður dæmd fyrir frekari glæpi.