Góðhjartaður eldri borgari gerði óviljandi meiri skaða en gagn á dögunum í viðleitni sinni til að gera upp forna fresku af Jesú Kristi.
Kalkmálverkið Ecce Homo eftir listamanninn Elias Garcia Martinez hefur átt heiðurstað í Mercy kirkjunni, sem staðsett er nærri Zaragoza á Spáni rúm 100 ár. Hún hefur orðið fyrir nokkrum rakaskemmdum í gegnum tíðina.
Eitt sóknarbarnanna, rúmlega áttræð kona, var slegin yfir slæmu ástandi myndarinnar og tók upp á sína arma að gera freskuna upp og hófst handa vopnuð pensli og málningu.
Spænsk menningaryfirvöld eru harmi slegin yfir skemmdarverkinu, en viðurkenna þó í yfirlýsingu að áform konunnar hafi verið góð þó góðverkið hefði misfarist. Yfirvöld vonast til að hægt verði að lágmarka skaðann með hjálp sérfræðinga.
Vaxlitakrot af „loðnum apa“
Samkvæmt því sem fram kemur á vefsíðu Breska ríkisútvarpsins, BBC, hafa einkenni listamannsins Martinez, verið máð út með grófum málningarslettum auk þess sem myndefnið, Jesús Kristur, er vart þekkjanlegt eftir aðfarir konunnar.
„Myndin, sem eitt sinn vakti aðdáun og virðingu allra sem hana sáu, líkist nú vaxlitakroti af loðnum apa í allt of stórum kyrtli,“ segir Christian Fraser, fréttaritari BBC í Evrópu.
Konan virðist hafa gert sér grein fyrir að henni myndi ekki takast ætlunarverkið og hafði samband við borgarfulltrúann Juan Maria Ojeda, sem hefur umsjón með menningarmálum borgarinnar.
Listasögufræðingar og sérfræðingar í freskum munu hittast á næstu dögum til að ræða hvaða skref verði tekin til að endurheimta hið dýrmæta málverk.
Hylja vegginn með ljósmynd
„Ég hef fulla trú á að fyrirætlanir hennar hafi verið sprottnar af góðmennsku. Í næstu viku mun hún hitta sérfræðinga og segja þeim hvaða efni hún notaði til „lagfæringarinnar,“ sagði borgarfulltrúinn Ojeda í samtali við fjölmiðla.
„Ef ekki verður hægt að laga skaðann munum við að öllum líkindum hylja vegginn með ljósmynd af freskunni,“sagði Ojeda við sama tækifæri.
Verðmæti freskunnar er að sögn sérfræðinga ekki mikið í peningum talið, en hefur gríðarlegt tilfinninga-og menningarlegt gildi fyrir íbúa svæðisins.
Til að bæta gráu ofan á svart hafði miðstöð sem starfar við varðveislu og lagfæringar á fornum listaverkum nýlega fengið rausnarlegt fjárframlag frá barnabarni konunnar, og hafði miðstöðin ráðgert að nýta peningana til endurgerðar freskunnar.