Breivik þarf að koma fyrir dóm 2032

Ef halda á fjöldamorðingjanum Anders Behring Breivik lengur er 21 ár í varðhaldi þarf að kveða upp úrskurð um það árið 2032. Þá þarf að sýna fram á að hann sé hættulegur umhverfi sínu. Á grundvelli slíks úrskurðar er hægt að vista hann í öryggisgæslu á geðdeild.

Dómurinn yfir Breivik kveður á um 21 árs fangelsi og að ekki komi til álita að sleppa honum úr fangelsi fyrr en í fyrsta lagi eftir 10 ár. Frá dómnum er dregið 445 daga gæsluvarðhald, en hann hefur verið í haldi frá því að hann framdi fjöldamorðin 22. júlí í fyrra. Hann var fundinn sekur um að hafa myrt 77 manneskjur.

Jón Þór Ólason, lektor í refsirétti við Háskóla Íslands, segir að Norðmenn hafi afnumið ævilangt fangelsi úr lögum og hámarksrefsing sé 21 árs fangelsi. Það sé sá dómur sem Breivik hafi fengið í dag.

Jón Þór segir að þó algengt sé að fangar fái reynslulausn sé það alls ekki alltaf svo. Hann telur líklegast að Breivik verði gert að sitja inni á grundvelli þessa dóms í þessi 21 ár.

Dæmdur sakhæfur

Í máli Breiviks var tekist á um hvort hann væri sakhæfur eða ekki. Jón Þór segir að sakhæfi sé lögfræðilegt hugtak og það sé því dómaranna að kveða upp úr um sakhæfi. Þeir hafi skýrslur geðlækna til hliðsjónar, sem og önnur gögn. Hann segir að sú þróun hafi orðið að þegar tekist er á um sakhæfi sé algengara en áður, að sakamenn séu dæmdir sakhæfir. Hann nefnir sem dæmi að morðingi Önnu Lindh, utanríkisráðherra Svíþjóðar, hafi verið dæmdur sakhæfur þó morðinginn hafi sýnt ýmis merki geðveilu.

Í 39. gr. norsku hegningarlaganna er ákvæði um að ef talið sé nauðsynlegt að vernda samfélagið gegn hættulegum mönnum sé heimilt að vista brotamann á lokaðri geðdeild. Þar segir að úrskurður um það þurfi að taka fyrir dómstólum. Sett eru nokkur skilyrði fyrir því að dæma megi mann til vistunar á geðdeild, m.a. að hann hafi framið alvarlegan glæp og að hætta sé á að hann fremji aftur alvarlegan glæp.

Ef Breivik hefði verið dæmdur sakhæfur hefði hann verið dæmdur á grundvelli þessa lagaákvæðis í öryggisgæslu.

Talsvert hefur verið fjallað um það í fjölmiðlum að Breivik muni verða í fangelsi til æviloka. Jón Þór segir það alveg ljóst að norsk lög heimili ekki að brotamenn séu dæmdir í fangelsi í lengri tíma en 21 ár. Hann segir að ef reynt verði að fá Breivik dæmdan í öryggisgæslu árið 2032 verði að taka um það nýja ákvörðun og þá verði m.a. horft til andlegs ástands hans á þeim tíma.

Anders Behring Breivik
Anders Behring Breivik ODD ANDERSEN
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert