Hetja himingeimsins fallin frá

Neil Armstrong í geimbúningi sínum.
Neil Armstrong í geimbúningi sínum. AFP

Er hann kom út úr geimflauginni Apollo 11 hinn 20. júlí árið 1969 varð hann fyrsti maðurinn til að stíga fæti á tunglið. Hann varð fljótt hetja í augum heimsbyggðarinnar og frægustu orð hans eru ódauðleg: „Lítið skref fyrir mann en risastökk fyrir mannkynið.“

Neil Armstrong er látinn, 82 ára að aldri. Hann hafði undirgengist hjartaaðgerð eftir að hafa verið greindur með kransæðastíflu en lést vegna fylgikvilla aðgerðarinnar að sögn fjölskyldu hans.

Að verða hetja var ekki nokkuð sem Armstrong stefndi að og þótti honum nafngiftin alltaf frekar óþægileg.

Talið er að um 500 milljónir manna hafi fylgst með beinni útsendingu af því er geimflaugin Apollo 11 lenti og út stigu á eyðilegt yfirborð tunglsins tveir bandarískir geimfarar í þunglamalegum hvítum búningum með glerhjálma á höfði.

Armstrong var yfirmaður þessarar geimferðar. Hann staðfesti við mikinn fögnuð sjónvarpsáhorfenda er geimferjan lenti heilu og höldnu á tunglinu: „Houston. Örninn er lentur.“

Armstrong og félagi hans, Buzz Aldrin, voru í um tvær og hálfa klukkustund á tunglinu og lýstu því í smáatriðum sem fyrir augu bar. Þeir svifu lauflétt í þunnu andrúmslofti tunglsins, þrátt fyrir þunga búningana.

Geimfararnir tóku myndir, söfnuðu steinum og jarðvegssýnum og komu fyrir rannsóknartækjum.

En það sem Bandaríkjamenn eru einna stoltastir af er þegar geimfararnir komu bandaríska fánanum fyrir á tunglinu og meðfylgjandi skilaboðum: „Hingað komu menn frá plánetunni jörð og urðu fyrstir til að stíga fæti á tunglið. Við komum í friði, öllu mannkyni til heilla.“

Þáverandi forseti Bandaríkjanna, Richard Nixon, talaði við geimfarana er þeir voru á tunglinu og sagði símtalið hafa verið það mikilvægasta í veraldarsögunni. 

„Fyrir alla Bandaríkjamenn, þetta er mesti dagur okkar tíma,“ sagði Nixon við Armstrong og Aldrin.

Geimfararnir sneru aftur til jarðar 24. júlí og þar með var bundinn endi á Apollo 11-geimferðaráætlunina. Þetta var í annað sinn sem Armstrong fór út í geim og það síðasta.

Armstrong á Íslandi fyrir geimferðina

Í tengslum við Apollo-áætlun geimvísindastofnunar Bandaríkjanna, NASA, sem hófst árið 1967 og miðaði að því að senda menn til tunglsins, voru geimfaraefni send til æfingaferða, meðal annars til Havaí, Alaska og Íslands, en hingað komu hópar væntanlegra tunglfara árið 1965 og 1967 og voru við æfingar og rannsóknir í Öskju og Veiðivötnum, undir stjórn jarðfræðinganna Sigurðar Þórarinssonar og Guðmundar E. Sigvaldasonar. Í seinni hópnum til Íslands var meðal annars Neil Armstrong sem fyrstur manna tók land á tunglinu 22. júlí 1969.

Bandaríkjamenn settu svonefnda Apollo-áætlun sína á laggirnar um miðjan sjöunda áratuginn með það inntak að nema land í geimnum. Nauðsynlegt þótti að þessir landnámsmenn hefðu undirstöðuþekkingu í jarðfræði og gætu sinnt nauðsynlegum rannsóknum á tunglinu. Þótti Ísland henta vel í því skyni og hingað komu til rannsóknar í Öskju og Veiðivötnum tveir hópar geimfaraefna, sem unnu hér að ýmsum æfingaverkefnum undir leiðsögn Sigurðar Þórarinssonar og Guðmundar E. Sigvaldasonar jarðfræðinga.

Í fyrri hópnum, sem hingað kom árið 1965, var Neil Armstrong sem fyrstur manna sté fæti á tunglið þegar geimferjan Apollo lenti þar 22. júlí 1969. „Lítið skref fyrir mig en risastökk fyrir mannkynið,“ sagði Armstrong þegar hann sté fæti í ríki kyrrðarinnar eins og veröld tunglsins var kölluð. Og rætur ferðar hans þar voru meðal annars á Íslandi.

Fékk flugpróf á 16 ára afmælisdaginn

Armstrong fæddist í Wapakoneta, Ohio, 5. ágúst 1930. Hann varð snemma upptekinn af flugi og vann á flugvelli í nágrenni heimilis síns er hann var unglingur.

Hann hóf flugnám aðeins 15 ára gamall og fékk flugprófið á sextán ára afmælisdeginum.

Armstrong var flugmaður í bandaríska hernum í Kóreustríðinu. Hann lærði flugvélaverkfræði við Purdue-háskólann í Indíana og tók síðar meistarapróf í þeim fræðum við háskólann í Suður-Kaliforníu.

Árið 1955 hóf hann störf sem tilraunaflugmaður í Kaliforníu og prófaði þá að fljúga um 50 ólíkum flugvélum.

Sjö árum síðar var hann valinn í hóp manna sem NASA ætlaði að þjálfa til geimferða í Houston í Texas.

Armstrong lét af störfum hjá NASA árið 1971 og fór þá að kenna flugvélaverkfræði við háskólann í Cincinnati. Þar kenndi hann í áratug og sat einnig í stjórnum margra fyrirtækja.

Þrátt fyrir ótrúlega mikla frægð var Armstrong aldrei hrifinn af því að vera í sviðsljósinu. Árið 2005 veitti hann CBS-sjónvarpsstöðinni viðtal en það gerði hann afar sjaldan. Í viðtalinu sagðist hann ekki hafa átt alla þessa athygli skilið, þótt hann hefði verið fyrsti maðurinn sem steig á tunglið.

„Ég var ekki valinn til að verða sá fyrsti. Ég var aðeins valinn til að stjórna þessu flugi. En vegna aðstæðna fékk ég þetta óvenjulega hlutverk,“ sagði Armstrong.

Bandaríkjamenn voru einstaklega stoltir er Armstrong og Aldrin komu bandaríska …
Bandaríkjamenn voru einstaklega stoltir er Armstrong og Aldrin komu bandaríska fánanum fyrir á tunglinu. AFP
„Lítið skref fyrir mann en risastökk fyrir mannkynið.“
„Lítið skref fyrir mann en risastökk fyrir mannkynið.“ AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert