Neil Armstrong látinn

Bandaríski geimfarinn Neil Armstrong er látinn, 82 ára að aldri. Armstrong var fyrsti maðurinn sem steig fæti á tunglið.

Armstrong gekkst undir hjartaaðgerð fyrr í þessum mánuði. Fjölskyldan segir hann hafa látist vegna fylgikvilla í kjölfarið á aðgerðinni.

Armstrong og félagi hans, Buzz Aldrin, fóru til tunglsins árið 1969 í geimferjunni Apollo 11.

Áður en haldið var út í geim komu geimfararnir til Íslands til æfinga. Fóru þeir m.a. að Öskju og Drekagili í heimsókn sinni.

Í tengslum við Apollo-áætlun geimvísindastofnunar Bandaríkjanna, NASA, sem hófst árið 1967 og miðaði að því að senda menn til tunglsins, voru geimfaraefni send til æfingaferða, meðal annars til Havaí, Alaska og Íslands, en hingað komu hópar væntanlegra tunglfara árið 1965 og 1967 og voru við æfingar og rannsóknir í Öskju og Veiðivötnum, undir stjórn jarðfræðinganna Sigurðar Þórarinssonar og Guðmundar E. Sigvaldasonar. Í seinni hópnum til Íslands var meðal annars Neil Armstrong sem fyrstur manna tók land á tunglinu 22. júlí 1969.

Bandaríkjamenn settu svonefnda Apollo-áætlun sína á laggirnar um miðjan sjöunda áratuginn með það inntak að nema land í geimnum. Nauðsynlegt þótti að þessir landnámsmenn hefðu undirstöðuþekkingu í jarðfræði og gætu sinnt nauðsynlegum rannsóknum á tunglinu. Þótti Ísland henta vel í því skyni og hingað komu til rannsóknar í Öskju og Veiðivötnum tveir hópar geimfaraefna, sem unnu hér að ýmsum æfingaverkefnum undir leiðsögn Sigurðar Þórarinssonar og Guðmundar E. Sigvaldasonar jarðfræðinga.

Í fyrri hópnum, sem hingað kom árið 1965, var Neil Armstrong sem fyrstur manna sté fæti á tunglið þegar geimferjan Apollo lenti þar 22. júlí 1969. „Lítið skref fyrir mann en risastökk fyrir mannkynið,“ sagði Armstrong þegar hann sté fæti í ríki kyrrðarinnar eins og veröld tunglsins var kölluð. Og rætur ferðar hans þar voru meðal annars á Íslandi.

Frétt mbl.is: Hetja himingeimsins fallin frá

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert