Ísak lemur á íbúum Flórída

Hitabeltislægðin Ísak er þegar farin að lemja á íbúum Flórída með miklu hvassviðri og úrkomu. Þrjú ríki við Mexíkóflóa lýstu í dag yfir neyðarástandi, en það gerði Flórída í gær. Enn er óttast að Ísak nái styrkleika fellibyls áður en hann fer yfir Louisiana.

Ríkisstjórnir Louisiana, Mississippi og Alabama lýstu í dag yfir neyðarástandi vegna Ísaks. Þó svo Ísak hafi ekki gengið á land lýsa ríkin yfir neyðarástandi af tæknilegum ástæðum, s.s. til að þau geti sótt fé í neyðarsjóði og virkjað rýmingaráætlun.

Búist er við að Ísak gangi á land á þriðjudag eða miðvikudag en ekki er gott að segja til um það hvar það verður eða hver styrkur hans verður þá. Áður fer hann yfir Flórída Keys-eyjaklasann og gæti það gerst í dag, mánudag.

Ísak skilur eftir sig slóð eyðileggingar á Haítí þar sem sjö létu lífið í óveðrinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert