Þeir sem látist hafa á Haítí í kjölfar stormsins Ísaks hefur fjölgað en staðfest hefur verið að sjö manns létu lífið þegar Ísak gekk yfir, þar á meðal tvö börn.
Hitabeltisstormurinn gekk yfir eyjarhlutann snemma dags í gær, en gríðarleg fátækt er á svæðinu. 400.000 manns búa þar í tjaldbúðum sem reistar voru eftir gríðarlegan jarðskjálfta sem kostaði 250.000 manns lífið og olli miklum skemmdum á eyjunni árið 2010.
Meðal fórnarlamba Ísaks voru 8 ára gömul stúlka sem lést þegar veggur hrundi á heimili hennar og 6 ára gamall drengur sem lést þegar hann leitaði skjóls frá storminum undir tjaldi. Einnig lést 51 árs gömul kona sem varð undir þegar hús hennar hrundi.
Hluti jarðskjálftatjaldbúðanna var rýmdur og var 5.000 manns gert að yfirgefa þær þegar stormviðvörun fyrir svæðið var gefin út á föstudag.
Stormurinn gekk yfir Kúbu að hluta í gær en hann dynur nú á Flórídaskaganum.
Storminn hefur lægt á Haítí, en rafmagn liggur enn niðri og netaðgangur er takmarkaður, samkvæmt því sem fram kemur á vef fréttastofunnar AFP.