Ísak stefnir á Louisiana

Hitabeltislægðin Ísak stefnir nú á Louisiana-ríki. Lægðin er nú undan ströndum Flórída og fer á 120 kílómetra hraða á klukkustund. Haldi hún áfram að þróast á sama hátt verður Ísak að fellibyl er hann stígur á land í Louisiana á morgun eða miðvikudaginn.

Ísak var í morgun vest-suðvestur af Key West í Flórída, á leið að Mexíkóflóa en þar er búist við að hann sæki í sig veðrið. Að auki er búist við því að hann muni valda öðrum hvirfilbyljum í Flórída.

Í gær var lýst yfir neyðarástandi í Louisiana, Mississippi og Alabama og íbúum í suðurhluta Alabama, í Mobile- og Baldwin-sýslum, hefur verið gert að yfirgefa heimili sín.

Íbúum þessa landshluta er enn í fersku minni það tjón sem fellibylurinn Katrína olli árið 2005, en þá létust 1.800 manns í borginni New Orleans í Louisiana. Þá var 1,4 milljónum manna gert að yfirgefa heimili sín, en margir sinntu því ekki.

Íbúar á svæðinu gera ýmsar ráðstafanir til að verjast Ísak og afleiðingum hans, til dæmis með því að verja heimili sín flóðum með sandpokum.

Frétt mbl.is: Ísak lemur á íbúum Flórída

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert