Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, lýsti í kvöld yfir neyðarástandi í Louisiana, en hitabeltislægðin Ísak stefnir á New Orleans. Sjö ár eru síðan fellibylurinn Katarína setti stærstan hluta borgarinnar á kaf.
Áður var búið að lýsa yfir neyðarástandi í Flórída, Mississippi og Alabama.
Ísak sækir í sig veðrið og reiknað er með að hann verði orðinn að fellbyl þegar hann gengur á land í Louisiana.
Obama tilkynnti Bobby Jindal, ríkisstjóra í Louisiana, í dag að hann hefði ákveðið að lýsa yfir neyðarástandi, en það þýðir að fylkið á kost á fjárhags- og neyðaraðstoð frá alríkisstjórninni.
Tæplega sjö ár eru síðan Katarína gekk á land í New Orleans. Um 1800 manns létust í náttúruhamförunum. George W. Bush, fyrrverandi forseti, var harðlega gagnrýndur fyrir að bregðast seint og illa við ástandinu.
Mitt Romney, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, tók í gær ákvörðun um að fresta um einn dag setningu flokksþings flokksins í Tampa í Flórída vegna óveðursins. Þingið hefst á morgun. Flokksmönnum þykir vafalítið miður að vera minntir á þessar hörmungar einmitt þegar útnefna átti Romney sem forsetaefni.