Ísak kostaði 19 líf

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í fjórum ríkjum Bandaríkjanna vegna hitabeltislægðarinnar Ísaks sem nálgast nú land. Stefnir lægðin að New Orleans en sjö ár eru síðan fellibylurinn Katrín olli gríðarlegum skemmdum í borginni.

Ríkin fjögur þar sem lýst hefur verið yfir neyðarástandi eru Louisiana, Flórída, Mississippi og Alabama.

Nítján létust er Ísak fór yfir Haítí um helgina en um fjögur hundruð þúsund íbúar landsins búa enn í tjaldbúðum tveimur árum eftir að jarðskjálfti, sem kostaði 250 þúsund manns lífið, reið yfir landið. Sex er enn saknað en 15 þúsund manns urðu að yfirgefa heimili sín vegna lægðarinnar og 335 heimili eru rústir einar. 

Flestum viðburðum hefur verið frestað eða aflýst í ríkjunum fjórum í Bandaríkjunum og hefur meðal annars Repúblikanaflokkurinn frestað landsfundi sínum um sólarhring en fundurinn fer fram í Tampa á Flórída. 

Líklegt er talið að Ísak verði orðinn að fellibyl innan sólarhrings. Þegar hefur verið gefin út flóðaviðvörun á svæðum við Mexíkóflóa sem liggja lágt yfir sjávarmáli.

Á vef BBC kemur fram að á Florida Keys-eyjunum, suður af Flórídaskaga, sé þegar komið úrhelli og rok. Hins vegar hafi ekki verið tilkynnt um tjón sem nokkru nemur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert