Vindhraði hitabeltisstormsins Ísaks er nú að nálgast hraða fellibyls og búa íbúar borgarinnar New Orleans í Louisianaríki í Bandaríkjunum sig undir að hann nemi þar land síðar í dag. Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hefur lýst yfir neyðarástandi í ríkinu og heitið því að tjón verði bætt af opinberu fé og að aðstoð muni verða veitt.
Ísak er nú yfir Mexíkóflóa og hefur jafnt og þétt sótt í sig veðrið undanfarna sólarhringa.
Fellibylurinn Katrína olli miklum usla, manntjóni og skemmdum í Louisiana árið 2005 og þótti forveri Obama í forsetastóli, George W. Bush, ekki bregðast við sem skyldi og var litlu fé og aðstoð veitt til uppbyggingar á svæðinu.
Ríkisstjórinn í Alabama hefur gert íbúum Mobile og Baldwin sýslna að yfirgefa heimili sín og ríkisstjóri Louisiana hefur beðið íbúa þeirra svæða, þar sem því er spáð að Ísak komi að landi, að yfirgefa heimili sín. Þá hafa þjóðvarðliðar verið kallaðir út í Mississippiríki og einnig eru hermenn í viðbragðsstöðu í Louisiana.
Nú þegar hafa 19 manns látist eftir að Ísak fór yfir Haítí og Kúbu um helgina.