Ísak gæti valdið stórtjóni og flóðum

Ísak er að sækja í sig veðrið í Mexíkóflóa.
Ísak er að sækja í sig veðrið í Mexíkóflóa. AFP

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, varar við því að hitabeltisstormurinn Ísak gæti valdið stórtjóni og flóðum við Mexíkóflóa. Hann hvetur íbúa á svæðinu til að fylgjast vel með fréttum næstu klukkustundirnar. Obama segir íbúa verða að taka „stóra storminn“ alvarlega.

„Ég vil hvetja íbúa við Mexíkóflóa til að hlusta vel eftir upplýsingum um storminn og fara eftir leiðbeiningum, líka ef rýming verður fyrirskipuð,“ sagði Obama í ávarpi í Hvíta húsinu í dag.

„Við eigum í höggi við stóran storm og það gætu orðið mikil flóð og skemmdir á stórum svæðum.“ Hann sagði að nú væri ekki tíminn til að „hunsa opinberar viðvaranir. Þið verðið að taka þetta alvarlega“.

Búist er við því að hitabeltisstormurinn Ísak sæki í sig veðrið síðar í dag og verði fellibylur er hann nær landi. Obama segir að stjórnvöld á stóru svæði vinni nú saman að því að undirbúa komu stormsins með það fyrir augum að lágmarka tjónið og tryggja öryggi íbúanna. Einnig er unnið með yfirvöldum í Púertóríkó.

Ísak mun m.a. fara yfir New Orleans en fyrir sjö árum olli annar fellibylur, Katrína, stórtjóni og mannfalli þar í borg.

Fellibyljamiðstöðin og almannavarnir sögðu í hádeginu í dag, að íslenskum tíma, að allt benti til þess að Ísak væri við það að breytast í fellibyl. Því er spáð að auga bylsins verði yfir Louisiana-ríki síðdegis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert