Ísak skilgreindur sem fellibylur

Fellibylurinn Ísak.
Fellibylurinn Ísak. AFP

Hitabeltisstormurinn Ísak náði upp í styrkleika fellibyls í dag með vindhraðanum 33 m/sek þegar hann skall á norður hluta Mexíkóflóa, eftir því sem stjórnvöld í Bandaríkjunum herma.

„Upplýsingar frá flughernum herma að mesti vindhraði stormsins hafi náð 33 m/sek,“ segir í yfirlýsingu. „Á þeim grunni hefur Ísak nú verðið skilgreindur sem fellibylur,“ sagði einnig. Frá þessu greinir AFP-fréttastofan. Til samanburðar við íslensk veðurgildi er talað um fárviðri eftir að 32 m/sek vindhraða hefur verið náð.

Áhrifa fellibylsins var orðið vart um 115 km suðaustur af ós Mississippi-fljótsins og um 250 km suðaustur af New Orleans, samkvæmt upplýsingum stjórnvalda.

Það var nánast upp á dag fyrir sjö árum sem íbúar New Orleans urðu fyrir barðinu á öðrum fellibyl, Katrínu, sem hafði gríðarleg áhrif á svæðinu með tilheyrandi flóðum í norðausturhluta Mexíkóflóa.

Neyðarskýli hafa verið opnuð fyrir þá sem misstu af því að koma sér úr borginni eða ákváðu að verða um kyrrt. Áhrifa fellibylsins mun líklegast gæta í rúmlega 300 kílómetra fjarlægð frá miðju hans en hann mun að öllum líkindum valda tjóni í Lousiana, Mississippi, Alabama og Flórída. Frá þessu er greint á heimasíðu CBS News. Nánar má lesa um málið í grein sem birtist fyrir skemmstu á mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert