Dregur úr styrk Ísaks

Fellibylurinn Ísak hefur valdið umfangsmiklu rafmagnsleysi í Louisiana og fleiri ríkjum Bandaríkjanna. Gríðarleg úrkoma fylgir Ísak, en heldur er tekið að draga úr styrk fellibylsins.

Richard Knabb, forstöðumaður Fellibyljamiðstöðvarinnar í Bandaríkjunum, segir að hættan af Ísak sé alls ekki liðin hjá. Hann muni valda usla í Bandaríkjunum næstu tvo sólarhringana.

Miðja Ísaks var um miðjan dag í dag nærri borginni Houma í Louisiana, sem er um 45 mílur suðvestur af New Orleans. Ísak stefnir hægt í norðvestur. Reiknað er með að hann verði í Arkansas á föstudag.

Björgunarmiðstöðin í Louisiana hefur fengið 150 beiðnir frá fólki um aðstoð.

Um 654 þúsund heimili voru án rafmagns í dag í Arkansas, Louisiana, Mississippi og Alabama.

Mikið eignatjón hefur orðið af völdum veðursins nú þegar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert