Fellibylurinn Ísak nálgast nú borgina New Orleans í Louisiana óðfluga. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir á svæðinu, en allur gangur er á því hvort íbúar taka það alvarlega. Til dæmis hefur nokkur fjöldi fólks safnast saman fyrir á bökkum Pontchartrain-vatns í Louisiana til að fylgjast með náttúruhamförunum.
Aðrir hafa sest að á krám og öldurhúsum, en fátt er af fólki á götum úti, enda mikið rok, úrhellisrigning og myrkur.
Í dag eru sjö ár síðan fellibylurinn Katrína lagði stóran hluta New Orleans í rúst og létust þá um 1.800 manns. Yfirvöld segja litla hættu á að það endurtaki sig, Ísak sé kraftminni en Katrína og að auki hafi verið gerðar ýmsar ráðstafanir til að draga úr eyðileggingarmætti fellibylja.